
til Mama Bali
Móar bjóða upp á viku dvöl á heilunar setrinu Yama Balian á vesturströnd Balí.
Í kyrrð og næði milli trjánna á árbakka Balian árinnar, rétt ofan við þar sem hún rennur í hafið, gefst tækifæri til að stilla sína hjartastrengi, efla lífsorkuna og tendra tilveruna.
Dagskráin fléttar saman persónulega iðkun og samveru í hóp, m.a. með íhugun, hreyfingu, söng, tónlist og fjölbreyttum vinnustofum. Allt miðar að því að styðja við og skapa aðstæður fyrir þátttakendur til að dýpka tengsl, innri og ytri, og eflast í eigin skinni. Eða jafnvel skipta um úr sér genginn ham, í öruggu rými.



Setrið sem við dveljum á heitir Yama Balian, en Yama er grundvallaratriði í yogafræðunum og merkir heilnæmt líferni. Orðið Balian merkir heilari/shaman.
Elementið vatn er það helgasta fyrir Balí búum og skipar stóran sess í þeirra siðum og við munum heiðra þeirra hefðir á meðan dvölinni stendur. Aðrar aðferðir sem við munum styðjast við eru:
Við höfum setrið út af fyrir okkur á meðan dvöl stendur, sem skapar næði & tækifæri til að fara á dýptina.
Hvern dag er fjölbreytt dagskrá sem miðar að því að efla, næra & hvíla, með góðan frítíma á milli til að njóta í næði eða í samveru, við sundlaugabakkann eða á ströndinni.
Shalað, eða iðkunar rýmið okkar, snýr að ánni og er umvafið náttúrunni. Þar munu töfrarnir gerast!
Matur er innifalinn og gerir upplifunina enn magnaðari.
Matreiðslan á Yama einkennist af listfengni og er lagt upp úr ferskleika, heilnæmi og fegurð.
Dæmigerður morgunverður getur innihaldið ferska suðræna ávexti, jógúrt, jurtamjólk, smoothies, Jammu (hefðbundinn indónesískur drykkur), orkugefandi jurta te og kaffi.
Í hádeginu og kvöldin er boðið upp á hlaðborð, til dæmis með árstíðabundnar súpur, kúskús, kínóa, polenta, núðlur, ferskt grænmeti, salöt og eftirrétti gerða af kostgæfni & ást.
Valkostir fyrir vegan og ekki-grænmetisætur eru einnig í boði.









Gisting í 2ja manna smáhýsum með útsýni út í náttúruna og verönd með huggulegu hvíldarsvæði og sófa.
Hvert hýsi er með sitt baðherbergi og sturtu undir berum himni. Á herbergjunum er loftræsting og öryggishólf. Myndirnar segja meira en orð! Möguleiki að velja einstaklings herbergi.
.png)

.png)
Flug
Næsti flugvöllur er Ngurah Rai alþjóðaflugvöllurinn (DPS) í Denpasar.
Flug er ekki innifalið í verði, svo þátttakendur hafi sveigjanleika til að sníða dvölina á Balí eftir sínum draumum fyrir og eftir Móa-ævintýrið. Við mælum með því þátttakendur gefi sér a.m.k. tvo daga eftir ferðalagið til þess að vinda ofan af tímamismun áður en dagskrá hefst.
Verð á flugum eru á bilinu 170.000 - 220.000 kr.
Að setrinu
Yama er í rúmlega tveggja klukkustunda akstursfjarlægð frá flugvellinum DPS. Við getum aðstoðað þig með ferðalagið á staðinn ef þess er óskað.
Lára, Áróra & Arnar verða þáttakendum innan handar ef þörf er á varðandi flug og ferð á áfangastað.
Ef þú vilt skoða setrið nánar geturðu kíkt hér:
https://yamabalian.com/
Hópurinn
Lítill hópur (13 - 17 þátttakendur).
Þátttakendum býðst að vera meðlimir í Facebook hóp ferðarinnar, þar sem við getum kynnst, deilt hugmyndum og draumum. Þar er einnig möguleiki á að stilla saman strengi varðandi flug og ferðalög á staðinn.
Um Balí
Áróru þykir vænt um Balí og dvaldist þar í mánuð 2019-2020. Hún á marga góða vini sem hafa búið þar lengi og því eru sterkir strengir til þessarar mögnuðu eyju, sem kenndi henni að njóta sem aldrei fyrr. Heimamenn eru gestrisnir á heimsvísu og eru einlægir og djúpir iðkendur. Náttúran er töfrandi og einkennist af allsnægtum. Hún hjúpar mannheima og sveipar þá mystík, sem gerir þessa litlu eyju í Indónesíu gjöfulan stað til að opna hjarta og hug, stunda sjálfsrækt og styðja við umbreytingar.

Lára Rúnarsdóttir
Lára Rúnarsdóttir er eigandi MÓA studio en draumur hennar er að skapa rými þar sem fólk finnur sig öruggt til þess að sleppa brynju sinni, grímum & vörnum. Að tengja við sitt sanna, einlæga sjálf & mæta öðrum þaðan. Rými þar sem við getum verið séð nákvæmlega þar sem við erum & fagnað því hversu ólík & stórkostleg við erum.
Lára er tónlistarkona (Burtfararpróf í klassískum söng, píanó- & gítarnám), meðferðaraðili í höfuðbeina & spjaldhryggjarjöfnun (Upledger á Íslandi). Lára er jógakennari (260 tíma frá Kundalini Research Institute) (150 tímar frá Yoga Light Warriors) & er í 500 tíma námi frá Yoga Reniew í New York. Hún er tónheilari & lærði hjá Saraswati Om (Gong & Sound healing).
Lára er líka með menntun í NA-Shamanisma (Otter Dance School of earth medicine) og með meistaragráðu í kynjafræðum frá Háskóla Íslands & B.ed. gráðu í kennslufræðum. Lára hefur gefið út sjö sólóplötur & er tónlist stór partur í hennar kennslu. Lára leggur áherslu á djúp tengsl, sjálfsvirðingu, sjálfsmildi, valdeflingu, söng, spuna & líkamsvirðingu í sinni kennslu.

Áróra Helgadóttir
Ástríða Áróru er að skapa rými fyrir hverja og eina manneskju til að uppgötva sig í öllu sínu veldi, kunna á sinn innri áttavita og geta tjáð sig einlægt og af virðingu, þaðan sem við getum samskapað nærandi og gefandi samfélag.
Hún tvinnar saman fjölbreyttan bakgrunn sinn sem náttúrubarn af Vestfjörðum, list-skapari í mótun, heilbrigðisverkfræðingur (MSc, TUDelft Hollandi), vöruhönnuður, yogakennari (200 RYT Ásta Arnardóttur, 300 RYT Julie Martin & Emil Wendel), núvitund og hugleiðsla (Kyrrðarvökur víða um heim í hefð Insight Meditation/Vipassana, lengst 28 dagar á Spirit Rock CA), markþjálfi (Evolvia), yoga nidra leiðbeinandi (Matsyendra), Shamanic Breathwork master practitioner (Venus Rising Association for Transformation), Sacred Sound frá Sri Vidya Tantra hefðinni (Russill Paul) og aðferðafræði sem á rætur í Lucid Body acting technique (Kennedy Brown).

Arnar Gíslason
Arnar er annar eigandi MÓA studio, tónlistarmaður & framkvæmdastjóri Hljóðfærahússins. Hann mun leiða okkur inn í mátt taktsins & verða okkur innan handar með praktísku málin. Arnar hefur verið trommarinn í möntru hljómsveit Móa frá upphafi & kennt með Láru á ýmsum námskeiðum.